Umhirða líkamans


Hreinlæti
Mikilvægt er að huga að hreinlæti líkamans. Við kynþroskaaldur eykst starfsemi svita- og fitukirtla og þá þarf að gæta vel að þrifnaði. Gott er að fara í sturtu eða bað annan hvern dag og auðvitað alltaf eftir líkamlega áreynslu. Hreinlæti er mikilvægt þegar kemur að kynfærum eins og öðrum stöðum líkamans. Hvernig við sinnum kynfærum hefur áhrif á ýmsar sýkingar og heilbrigði kynfæranna. Hér er meðal annars um að ræða þvagfærasýkingar, typpaost, sveppasýkingar og fleira.
Gott er að þvo kynfærin reglulega með volgu vatni, ekki er mælt með að nota sápu því hún getur haft áhrif á sýrustig líkamans. Mikilvægt er að þvo á milli skapbarma píkunnar og gæta þess að bera ekki bakteríur frá endaþarmi að leggangaopi. Einnig skal þvo vel undir forhúð á typpinu vegna þess að undir forhúðinni geta safnast óhreinindi og bakteríur. Sumar bakteríur eru þó klókari en aðrar og fara auðveldlega í gegnum slímhúð sama hversu heilbrigð hún er. Þetta eru bakteríur og veirur sem valda kynsjúkdómum og eina leiðin til að forðast það smit er að nota smokkinn eða töfrateppið við samfarir.
Píkulykt
Typpaostur
Það er fullkomlega eðlilegt að það sé lykt af píkunni. Ef það er mjög sterk og illa lyktandi lykt af píku einstaklings getur verið um einhvers konar sýkingu að ræða og þá er tilvalið að kíkja til læknis.
Það þarf ekki að nota sápu þegar hún er þvegin, alveg nóg að nota vatn. Sápa eða svokallaðir píkuklútar geta nefnilega eyðilagt náttúrulega sýklaflóru legganganna og valdið útferð og vondri lykt.
Píkur eiga ekki að lykta eins og sápa eða blóm.
Píkur lykta eins og píkur.
Typpaostur myndast þegar óhreinindi eða skán safnast fyrir undir forhúðina á typpum. Til þess að koma í veg fyrir typpaost er mikilvægt að þvo typpið reglulega með vatni, með því að bretta upp forhúðina og þrífa. Ef forhúð er of þröng og það reynist erfitt að bretta upp á hana, þá er getur verið gott að leita til þvagfæralæknis og fá ráðgjöf.

Útlit líkamans
Líkamshár
Hárvöxtur er eðlilegur hlutur og partur af því að vera manneskja. Sumir vilja hafa líkamshár og finnst það flott á meðan aðrir vilja losna við þau, það er mjög einstaklingsbundið.
Sumir vilja losna við hár á áberandi stöðum t.d. eins og undir höndum og á fótleggjum. Gott er að spyrja sig ,,Af hverju vil ég losa mig við þessi hár?” og komast að því hvort það sé fyrir þig eða einhvern annann. Þetta er þinn líkami og þú tekur ákvarðanir eftir þínu innsæi.
Það eru ýmsar leiðir til þess að fjarlægja hár t.d. rakstur, plokkun, vax, háreyðingarkrem og laser meðferð. Það er mismunandi hvaða aðferð hentar hverjum einstaklingi og gott er að ráðfæra sig við fullorðinn einstakling eða sérfræðing um hvað er best fyrir þig.
Inngróin hár
Þau líkamshár sem komast ekki út fyrir húðina af einhverri ástæðu. Við fjarlægingu líkamshára er aukin hætta á inngrónum hárum, sem getur leitt af sér óþægilega sýkingu. Slíkt getur birst sem litlar bólur eða bungur á húðinni. Algengir staðir eru á skeggvæði, undir höndum, á kynfæra- og nárasvæði og fótleggjum. Ef inngróin hár verða til ama er um að gera að leita til læknis.
Fyrirbyggjandi ráð:
Til að koma í veg fyrir innróin hár er ráðlagt að forðast rakstur, plokkun og vax. Ef það gengur ekki þá er gott að:
1. Þvo húð með volgu vatni og mildum hreinsi fyrir rakstur
2. Nota mýkjandi krem eða gel á hárin
3. Nota beitta rakvél en forðist að raka of nálægt húð
4. Raka í sömu átt og hárin vaxa,
5. Skola rakvélarblað eftir hverja stroku
6. Skola húð eftir rakstur og bera milt krem á húðina





Það er svolítið merkilegt með hárvöxt að ákveðinn hárvöxtur getur verið í tísku. Þá getur verið áhugavert að skoða það út frá kynjasjónarhorninu og spyrja sig hvort að sömu reglur gildi um líkamshár karla og kvenna?
T.d. af hverju eru margir karlmenn með hár á leggjunum en konur eiga það til að láta fjarlægja þau? Gegna þau ekki sama tilgangi?
Píkur
Í byrjun kynþroskaskeiðs tekur píkan útlitslegum breytingum og mikilvægt er að píkueigandi sé meðvitaður um slíkt við kynþroskaaldur.
Píkan getur haldið áfram að breytast með hækkandi aldri.
Skapabarmar

Því sem nær dregur að kynþroska byrja innri barmarnir að breytast, þeir stækka, dökkna og verða krumpaðri í útliti. Stundum ná innri barmarnir yfir ytri barma eða eru misstórir, sem er alveg eðlilegt. Hjá sumum geta síðir skapabarmar valdið óþægindum t.d við íþróttaiðkun eða í ákveðnum fötum. Í einstaka tilvikum er framkvæmd aðgerð til að stytta barmana.
Typpi
Typpi eru eins ólík og þau eru mörg. Þau eru lítil, stór, þykk, grönn, skökk, bogin og bein. Sumir eru með forhúð, aðrir eru umskornir. Typpi geta líka verið krumpuð, æðaber, lin og stinn.

Lýtaðagerðir á kynfærum og brjóstum
Ýmsar lýtaaðgerðir er hægt að framkvæma á kynfærum og brjóstum. Mikilvægt er að huga að ýmsum þáttum áður en lagst er undir hnífinn, huga þarf að tilfinninga- og líkamlegum afleiðingum og jafnvel fjárhagslegum. Einstaklingur þarf að spyrja sjálfan sig hver sé raunverulegi hvatinn sem liggur að baki aðgerðarinnar. Aðgerðir á píkum eru flestar gerðar í þeim tilgangi að stytta barmana. Aðgerðir á brjóstum geta verið til að stækka þau eða minnka.
Brjóstnám: Skurðaðgerð þar sem brjóstin eru fjarlægð.



Kynfæragötun


Kynfærin eru viðkvæm svæði og er því öruggast að fara til sérfræðings ef gata á kynfærin. Mikilvægt er að huga vel að hreinlæti þegar það kemur að götun kynfæra.
Píka: Algeng götun er í snípshettuna. Flest allir sem eru með göt í píkunni kvarta ekki undir óþægindum en sumir hafa greint frá mikilli örvun vegna aukins næmis.
Typpi: Vinsælasta götunin er ,,Prins Albert” og er þá pinna stungið í gegnum þvagrásina og út við kónginn. Sumir hafa greint frá vandamálum sem tengjast stjórn á þvaglátum, en þeir pissa oft standandi til þess að komast hjá þeim.