top of page

Kynþroski

Kynþroski er sá tími ævinnar sem einkennist af töluverðum líkamlegum, sálrænum og félagslegum breytingum. Kynfæri byrja að þroskast og barnslíkami verður að fullorðins líkama. Þessar breytingar verða til vegna flóklinna breytinga á hormónastarfsemi og þá sérstaklega kynhormóna. 

 

Kynþroskinn er mjög persónubundinn og getur einstaklingur byrjað á kynþroskaskeiði allt frá aldrinum átta til átján ára. Það er mjög einstaklingsbundið hvenær kynþroskinn hefst en það stjórnast mest af erfðum.

 

Stelpur og aðrir píkueigendur (XX litningar) eru þó líklegri til þess að byrja á kynþroska fyrr heldur en strákar og typpaeigendur (XY litningar). Kynþroskinn varir yfir í dágóðann tíma allt frá einu ári upp í fimm ár. Einstaklingur með leg verður kynþroska þegar blæðingar hefjast og einstaklingur með typpi hefur náð fullum kynþroska við sáðlát.

 

Þetta skeið lífsins hefur miklar breytingar í för með sér og margs konar tilfinningar spretta upp meðal ungmenna. Þetta skeið er þó ekkert sem þarf að óttast. Mikilvægt er að hafa í huga að allir einstaklingar ganga í gegnum þessar breytingar og að við erum öll mismunandi og misjafnlega fljót að þroskast.

Screenshot 2022-02-11 at 11.34.11.png

​Hárvöxtur

Við kynþroskaaldur byrja hár að vaxa á líkamanum og er það merki um að líkaminn er að þroskast. Hárvöxtur eykst á mörgum stöðum t.d. eins og á kynfærum (skaphár), undir handakrikum, á fótleggjum, handleggjum, baki, bringu og í andlitinu. Það er þó mjög einstaklingsbundið hvenær líkamshár byrja að vaxa og hversu mikið vex. Þessi hár eru mjög mismunandi milli einstaklinga allt frá því að vera fíngerð og ljós upp í að vera gróf og mjög dökk. Hárvöxtur á kynfærum er eðlilegur og hárin hafa þann tilgang að vernda kynfærin gegn núningi og sýkingu. Hárin verða ekki til vandræða í kynlífi og þau tákna ekki óhreinlæti. Sumum finnst þó betra að snyrta þau eða fjarlægja.

Hárvöxtur
Bólur

Þrymlabólur (e. acne)​

Ein tegund kirtla í húðinni eru fitukirtlar og í flestum tilvikum er hver þeirra tengdur einum hársekk. Bólur myndast þegar rásir fitukirtlanna í húðinni lokast vegna tappa úr hyrni eða fitu. Ef sýking kemst í tappann myndast gröftur og ef bólan opnast losnar gröftur úr henni. Bólur eru algengar meðal ungmenna og það stafar af því að kynhormónin auka myndun fitu í fitukirtlum húðar. Bólur geta verið í formi fílapensla, graftarbóla eða jafnvel graftarkýla. Algengast er að fá bólur á svæðum þar sem mikið er af fitukirtlum í húðinni t.d. eins og í andliti, á baki og efri hluta brjóstkassa. Það eru ýmsar ástæður hvers vegna við fáum bólur það getur t.d. verið útaf erfðum, hormónabreytingum, sykurneyslu, streita eða vegna notkun húðvara sem innihalda of mikla fitu eða olíu. 

 

Þrymlabólur, stundum kallað acne, bólusjúkdómur eða unglingabólur byrja venjulega á unglingsárum og hverfa oftast milli 20-30 ára aldurs. Það er þó mjög einstaklingsbundið, í sumum tilfellum er sjúkdómurinn mjög þrálátur og getur verið virkur mun lengur. Hægt er að hjálpa öllum þeim sem þjást af bólum og mikilvægt er að byrja snemma til þess að koma í veg fyrir varanlegan skaða í húðinni, líkt og öramyndun. Til eru margar fjölbreyttar meðferðir og mikilvægt er að leita hjálpar hjá fagaðila.

Bólur á kynfærum​

Algengt er að fá litlar hvítar bólur á typpið. Þær eru saklausar og best er að láta þær í friði. Þær fara að lokum í sjálfu sér eða í flest öllum tilfellum. Ef bólur valda óþægindum, kláða eða þær fara ekki þá þarf að leita læknis. Mörg fá litlar rauðar bólur eftir rakstur og þá sérstaklega á nárasvæðinu eða við skeggrót.

Mútur

Mútur
Á kynþroskaaldrinum breytist rödd einstaklinga með XY litninga og byrjar að dýpka, þetta skeið er oft kallað mútur. Það eru kynhormón að nafni testósterón sem veldur þessari breytingu á röddinni. Barkakýlið sem er staðsett í hálsi byrjar að stækka og inni í því eru raddbönd sem byrja að lengja og þykkna. Meðan þessar breytingar eiga sér stað getur reynst erfitt fyrir einstakling að hafa stjórn á rödd sinni. Röddin getur hljómað ýmist skræk, rám eða djúp. Þetta tímabil stendur yfirleitt yfir í örfáa mánuði eða á meðan líkaminn er að venjast því að hafa stóran barka og þykk og löng raddbönd. Þetta er ósköp eðlilegt og ekkert feimnismál og flest allir ganga í gegnum þessar breytingar.

Hreinlæti

Hreinlæti

Mikilvægt er að huga að hreinlæti þegar það kemur að heilbrigðum lífsstíl. Við kynþroskaaldur eykst starfsemi svita- og fitukirtla og þá þarf að gæta vel að þrifnaði. Gott er að fara í sturtu eða bað annan hvern dag og auðvitað alltaf eftir líkamlega áreynslu. Hreinlæti er mikilvægt þegar kemur að kynfærum eins og öðrum stöðum líkamans. Hvernig við sinnum kynfærum hefur áhrif á ýmsar sýkingar og heilbrigði kynfæranna. Hér er meðal annars um að ræða þvagfærasýkingar, typpaost, sveppasýkingar og fleira. Gott er að þvo kynfærin reglulega með volgu vatni, ekki er mælt með að nota sápu því hún getur haft áhrif á sýrustig líkamans. Mikilvægt er að þvo á milli skapbarma píkunnar og gæta þess að bera ekki bakteríur frá endaþarmi að leggangaopi. Einnig skal þvo vel undir forhúð á typpinu vegna þess að undir forhúðinni geta safnast óhreinindi og bakteríur.

Líkastlyt

Líkamslykt

Á yfirborði húðarinnar er að finna svitakirtla og þeir verða virkari á kynþroskaárunum. Sviti er vökvi sem inniheldur vatn, sölt og önnur úrgangsefni sem myndast í svitakirtlum. Við svitnum til þess að stjórna líkamshita okkar og losa líkamann við úrgangsefni.

 

Svitinn sjálfur er lyktarlítill en ef við pössum ekki vel upp á hreinlætið og við leyfum svitanum að liggja á húðinni í nokkrar klukkustundir, þá ná bakteríur að starfa í svitanum og þá kemur svitalykt. Þess vegna er mikilvægt að fara reglulega í sturtu eða bað og alltaf eftir líkamsrækt. Það er ekki nauðsynlegt að nota alltaf sápu við daglegan þvott en gott er að nota hana í hófi. Ef einstaklingur hefur ekki tíma eða tök á því að fara í sturtu strax þá geta svitalyktareyðar hjálpað og til er fjölbreytt úrval af svitalyktareyðum.

Blæðingar

Blæðingar

Þegar leghafi byrjar á blæðingum er viðkomandi orðinn kynþroska og allir hlutar kynfæranna eru byrjaðir að starfa eðlilega. Blæðingar koma fyrir einu sinni á hverjum tíðahring. Það fer eftir lengd tíðahrings hversu langt er á milli blæðinga en hjá flestum koma þær fyrir mánaðarlega. Með blóðinu losnar egg og slímhúð legsins út úr líkamanum. Algengt er að blæðingar standi yfir í þrjá til sjö daga en það er þó afar einstaklingsbundið. Það er mismunandi hversu mikið blóð kemur í hverjum blæðingum og blóðið getur verið allskonar rautt, bleikt eða jafnvel brúnt. Þessi blóðmissir hefur því sjaldan áhrif á starf líkamans en getur þó gert það ef einstaklingur er járnlítill, en hægt er að koma í veg fyrir það með því að borða fjölbreyttan mat.

 

Algengast er að leghafi fái sínar fyrstu blæðingar á aldrinum 11-13 ára en það er þó mjög persónubundið. Sumir byrja á blæðingum aðeins við átta ára aldur og aðrir ekki fyrr en átján ára. Fyrstu blæðingarnar eru yfirleitt mjög litlar og oftast er það aðeins lítill brúnn blettur sem kemur í nærbuxurnar. Leghafi fer á blæðingar á meðann hann er frjór. Algengt er að blæðingar hætti í kringum fimmtugs aldurinn eða þegar viðkomandi gengur í gegnum svokallað ,,breytingarskeið” en sumir hætta fyrr og aðrir síðar, það er mjög einstaklingsbundið líkt og kynþroskinn.

 

Blæðingar eiga ekki að koma í veg fyrir að einstaklingur geti t.d. farið í sund eða á íþróttaæfingu, einstaklingur getur gert allt sem hann er vanur að gera á meðan blæðingar standa ekki nema að einstaklingur sé með mikla túrverki. Mkilvægt er að gæta hreinlætis á meðan á blæðingum stendur.

Millitíðablæðingar

Er þegar blóð kemur fyrir utan hins skilgreinda blæðingatímabils. Þær eru eðlilegar og venjulega ekkert til þess að óttast. En ef einstaklingur hefur áhyggjur af því eða millitíðablæðingarnar eru miklar er um að gera að leita til læknis

_105661431_gettyimages-892358058.jpeg

​Túrverkir​

Túrverkir eða tíðaverkir eru verkir sem einstaklingur finnur fyrir í kviðnum nokkrum dögum fyrir blæðingar eða á meðan þær standa yfir. Það eru efni í líkamanum að nafni prostagladín sem valda þessum verkjum með því að láta sléttu vöðvana í leginu dragast saman. Þessir verkir geta verið mismiklir og eru mjög persónubundnir, sumir finna ekki fyrir þeim og aðrir þurfa að vera rúmliggjandi á meðan blæðingum stendur. Gott ráð við tíðaverkjum er að setja hitapoka yfir neðri hluta kviðsins, nudd á neðri hluta baksins eða jafnvel að taka verkjatöflur. Hreyfing hefur líka góð áhrif á túrverki. Ef einstaklingur fær alltaf mikla túrverki og ekkert af þessu hjálpar við að minnka sársaukan, þá getur verið gott að kíkja til kvensjúkdómalæknis og fá ráðgjöf.

Tíðavörur

Hægt er að nota ýmislegt til þess að taka við blóðinu á meðan blæðingum stendur. Alls kyns ilm- og aukaefni geta leynst í dömubindum og túrtöppum sem geta valdið ertingu. Hægt er að finna vörur í apótekum og matvöruverslunum sem erta síður líkamann og eru auk þess umhverfisvænni. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að notkun álfabikars eða túrtappa breyti leggöngunum á einhvern hátt eða hafi slæmar afleiðingar.

​ÁHUGAVERÐ STAÐREYND

Til eru ótal mörg heiti yfir blæðingar t.d. að vera á túr, að vera á blæðingum, Rósa frænka, tíðir, hafa á klæðum, sá tími mánaðarins, rauða skrímslið, fossinn, erfðasyndin, syndaflóðið og margt fleira.

IMG_3703-1-scaled.jpeg
úferð

​Útferð​

Útferð er ljóst eða gulleit slím sem kemur frá leggöngum og er eðlilegur partur af starfsemi legganganna. Útferð er leið píkunnar til að hreinsa sig og halda sér heilbrigðri. Vegna hormónabreytinga er eðlilegt að útferð hefjist hjá einstaklingum um sex mánuðum áður en blæðingar byrja. Útferðin getur líka breyst eftir því hvar einstaklingur er staddur í tíðahringnum. Hins vegar ef útferð er illa lyktandi og/eða kláði eða sviði fylgir þá er ráðlegt að leita læknis eða ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing. Mikilvægt er að passa upp á hreinlætið, fara í sturtu eða bað og skipta um nærbuxur reglulega.

Eðlileg útferð

  • Glær, fölhvít eða gulleit, lyktarlítil, án óþæginda, breytileg að lit eða þykkt eftir tíðahringnum.

Óeðlileg útferð

  • Gul eða græn, vond lykt, kekkjótt áferð á útferðinni, kláði, sviði eða skyndilega meiri óþægindi.

Sáðlát

​Sáðlát​

Á kynþroskaaldrinum byrja eistun að framleiða sáðfrumur sem eru kynfrumur einstaklinga með typpi. Þegar einstaklingur fær sáðlát, þá kemur hvítur og slímkenndur vökvi úr typpinu sem kallast sæði eða brundur. Í sæði eru sáðfrumur ásamt vökva úr blöðruhálskirtli og sáðblöðru sem blandast saman í sáðrásinni. Þegar einstaklingur fær sáðlát þá losna milljónir sáðfruma út úr typpinu, að meðaltali 200-300 milljónir sáðfruma. Þær eru örsmáar og sjást ekki með berum augum heldur þarf smásjá til þess að greina þær. 

 

Sæði er yfirleitt hvítt eða grágult á litinn og er ýmist matt eða gegnsætt. Það getur haft salt, beiskt eða sætt bragð og getur verið bykkt, kekkjótt eða klístrað á áferð. Með öðrum orðum þá getur sæði verið mismunandi á milli einstaklinga og fer það oftast eftir mataræði einstaklingsins, hvort hann reykir, drekkur áfengi eða tekur einhver lyf.

 

Meðalmagn við hvert sáðlát er sirka ein teskeið en það getur verið minna eða meira. Ef stutt er frá seinasta sáðláti gæti magnið verið minna. Eins ef það er langt síðan þá getur magnið orðið meira en svo þarf ekki endilega að vera þannig. Magn sæðis segir þó ekkert til um hversu margar sáðfrumur eru í sæðinu.

Sáðlát í svefni

Þegar talað er um blauta drauma er átt við sáðlát í svefni. Það er eðlilegt og flestir einstaklingar með typpi upplifa sáðlát í svefni en það eldist af þeim. Algengur misskilningur er að þegar einstaklingur fær sáðlát í svefni tengist það kynferðislegum draumum en það er ekki rétt.

white-underwear-on-a-string-801269852-5c438001c9e77c0001f444e8.jpeg
Standpína

Standpína (e. boner/erection)​

Við örvun flæðir blóð fram í typpið og það verður stinnt eða hart. Þetta er lífeðlislegt viðbragð og er fullkomlega eðlilegt. Margir þekkja þetta ástand og það verður algengara með hækkandi aldri, sérstaklega á morgnanna. Eftir því sem einstaklingur eldist getur stinning farið að tengjast ýmsu áreiti, sem seinna getur fengið kynferðislega merkingu. Þá er talað um að mönnum standi eða þeim rísi hold, einnig er það kallað að hafa standpínu.

 

Það er oft kynferðisleg örvun, líkamleg eða andleg (hugsanir), sem leiðir til þess að standpína myndast en standpína getur líka orðið til að sjálfu sér. Standpína er ósjálfvirkt viðbragð og því miður er ekki hægt að hafa beina stjórn á henni, ekki frekar en að reyna að stýra þarmahreyfingum sínum. Þær geta komið og farið eins og þeim sýnist. Þær geta komið óumbeðnar hvenær sem er og hvar sem er. Óumbeðnar standpínur eru vanalega algengari á unglingsárum þegar hormónastarfsemin er í fullu fjöri. Vegna þess að standpínur geta líka verið merki um kynferðislega örvun þykja óumbeðnar standpínur stundum vandræðalegar.

 

Útlit standpínu getur verið mjög breytilegt milli einstaklinga. Hjá sumum lengist typpið og öðrum ekki. Typpi í reisn getur vísað upp, fram, niður eða á ská. Typpið getur verið beint eða sveigt upp, niður eða á ská. Sveigja á standpínu er algeng.

156856611_758913404736580_8729160208893690757_n.png

​ÁHUGAVERÐ STAÐREYND

Standpínur geta komið fram hjá fóstrum sem hafa ekki enn verið fædd.

Brjóst

Brjóst​

Á kynþroskaskeiðinu byrja brjóst að myndast. Algengast er að þau byrji að myndast um 10-11 ára aldurinn en það er þó mjög einstaklingsbundið. Þegar brjóst byrja að þroskast þá myndast yfirleitt smá bólga undir geirvörtunum og þá er eðlilegt að finna fyrir eymslum í þeim. Brjóst eru um 4-5 ár að verða fullþroska. Lögun og stærð þeirra er fjölbreytileg eftir einstaklingum og stjórnast það yfirleitt af þyngd og erfðum.

bottom of page