Kyn & kynvitund
Kynverund
Kynverund (e. sexuality) er óaðskiljanlegur partur af persónuleika hvers og eins. Kynverund vísar til heildarupplifunar af því að vera kynvera. Hún er samspil kyns, kyngervis, kyneinkenna, kynhneigðar og kynvitundar. Hún er breytileg og í mótun alla ævi.

Kynferði segir til um líffræðilegt kyn einstaklings.
Kyngervi
Kyngervi (e. gender) er félagslegt kyn einstaklings, það kyn sem einstaklingur birtir út á við og er tjáning kynvitundar. Í almennu talmáli hérlendis vísar þó kyn oftast bæði til kyns og kyngervis. Kyngervi mótast af þeim væntingum sem samfélagið gerir til kynjanna.
Kynferði (e. sex) með því er átt við með líffræðilegt kyn einstaklings.

Kynvitund
Kynvitund (e. gender identity) er hvernig einstaklingur kýs að skilgreina sig, hvernig honum líður inn á við og upplifir sitt eigið kyn. Kynvitund vísar ekki til kynfæra, líffræðilegra þátta eða útlits - heldur hvernig einstaklingur upplifir sig. Allir hafa kynvitund því allir upplifa kyn sitt á einhvern hátt. Kynvitund getur verið alls konar, sumir upplifa sig sem konu og aðrir sem karla. Aðrir upplifa sig sem blöndu af hvoru tveggja og eru þá kynsegin. Enn aðrir upplifa sig hvorki sem konu né karl. Þetta er mjög mismunandi og gefur lífinu fjölbreytileika.
Kynímynd
Kynímynd eða kynjahlutverk (e. gender role) eru hvernig hugmyndir um karlmennsku og kvenleika birtast í samfélaginu, sem segir til um hvernig einstaklingur af viðkomandi kyni eigi að haga sér.
Dæmi:
-
Bóndi, bifvélavirki, pípari og smiður eru störf fyrir karlmenn
-
Hársnyrtir, hjúkrunarfræðingur, snyrtifræðingur og flugfreyja eru störf fyrir konur
-
Konur eiga að bera börn, elda mat og þrífa
-
Karlar eiga að vera úti að vinna, sjá fyrir fjölskyldunni og vera sterkir
Þetta eru kynhlutverk sem samfélagið hefur kennt okkur. Þessar hugmyndir eru úreltar og ætti ekki að halda þeim á lofti.


Sískynja
Að vera sískynja (e. cisgender) er þegar einstaklingur upplifir sig í tengingu við það kyn sem hann fékk úthlutað við fæðingu.
Hinsegin
Hinsegin er regnhlífarhugtak yfir alla hópana (sbr. LGBTQIA+)
-
L stendur fyrir lesbía
-
G fyrir homma
-
B fyrir tvíkynhneigð
-
T fyrir trans
-
Q fyrir hinsegin (e. queer)
-
I fyrir intersex
-
A fyrir asexual
-
...


Trans
Einstaklingar sem upplifa sig ekki sem það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu eru trans. Þetta er þegar kynvitund og kynferði fer ekki saman. Oft er talað um að viðkomandi ,,hafi fæðst í röngum líkama”, en það er mikil einföldun á upplifun einstaklings. Það að vera trans vísar til kynvitundar en ekki kynhneigðar. Trans fólk getur haft hvaða kynhneigð sem er. Sumir trans einstaklingar ákveða að fara í gegnum kynleiðréttingu en aðrir ekki, það er mjög einstaklingsbundið.
Kynleiðrétting
Þegar ósamræmi er á milli kynvitundar og kynferðis og líffræðilegt kynferði einstaklings er leiðrétt til að samsvara kynvitund viðkomandi. Kynleiðrétting er framkvæmd af sérfræðingum og í því ferli felst hormónagjöf, ráðgjöf og mögulega aðgerð til þess að breyta kynfærum.
Ekki er nauðsynlegt að fara í aðgerðir til þess að vera trans, sumir kjósa eingöngu að taka inn hormón og sleppir öllu öðru. Hérlendis er t.d. ekki skylda að fara í aðgerð eða að taka inn hormón til þess að fá leiðréttingu á kyni sínu í þjóðskrá. Fólk getur verið trans hvort sem það kýs að fara í kynleiðréttingarferli eða ekki.

Kynsegin
Kynsegin er hugtak sem nær yfir fólk sem skilgreinir kyn sitt utan tvíhyggju kynjakerfisins. Einstaklingur sem skilgreinir sig hvorki sem karl né kona og er þar af leiðandi blanda af hvoru tveggja eða flakkar á milli.
Sumt kynsegin fólk kýs að notuð séu kynlaus persónufornöfn á borð við hán í staðinn fyrir hann eða hún þegar rætt er um það.
Kynhlutlaus persónufornöfn
Algengt er að kynsegin fólk kjósi að nota kynhlutlaus persónufornöfn. Íslensk persónufornöfn sem notuð eru um fólk vísa alltaf til karlkyns (hans) eða kvenkyns (hún). Í dag eru einnig notuð fornöfn á borð við hán, hé og hín. Þau eru einkum notuð af kynsegin fólki.
Mikilvægt er að bera virðingu fyrir vali hvers og eins á persónufornafni. Gott er að spyrja einstakling bara um nafn og hvaða fornafn það kýs að fólk noti um sig. Þá er málið dautt og allir eru sáttir.
Kyntjáning
Kyntjáning (e. gender expression) segir til um hvernig einstaklingur tjáir kynvitund sína daglega. Til dæmis með klæðavali og líkamstjáningu. Kyntjáning er partur af lífi allra; sumir tjá kyn sitt á óhefðbundinn hátt og aðrir ekki..
Butch
Hugtakið ,,butch” er oftast notað um hinsegin konur sem samfélagið lítur á sem karlmannlega t.d. í klæðaburði eða í vali á áhugamálum. Ekki er ennþá komið íslenskt heiti yfir hugtakið.

Femme
Orðið ,,femme” er notað um hinsegin einstaklinga sem annað hvort klæðir sig eða/og hagar sér ,,kvenlega” eða það sem samfélagið álítur sem kvenlegt, t.d. eins og í klæðaburði og vali á áhugamálum. Sé um lesbíur að ræða er gjarnan talað um ,,lipstick lesbians” á ensku.
Drag
Þegar fjallað er um drag er átt við fólk sem klæðist fötum og sýnir látbragð sér í tengslum við ,,gagnstætt kyn” á einhvers konar sýningu eða öðrum gjörningi. Oft er talað um dragkónga og dragdrottningar.
-
Dragkóngur: dragkónar eru yfirleitt konur eða kynsegin fólk sem leikur karlkyns persónu. Klæðir sig upp og hegðar sér karlmannlega.
-
Dragdrottning: dragdrottningar eru yfirleitt karlar eða kynsegin fólk sem leikur kvenkynspersónu. Klæðir sig upp og hegðar sér á kvenlegan hátt.
