
Mannslíkaminn
Mannslíkaminn er flókið, áhugavert og fjölbreytt fyrirbæri. Öll erum við allskonar. Kynfæri okkar eru það líka. Sumt fólk er með píku, annað með typpi og enn aðrir intersex.
Það er oft talað um kynfæri karla sem typpi og kvenna sem píku, sem getur alveg átt rétt á sér ef rætt er um sískynja fólk (e.cis gender). Hins vegar er ekki hægt að tala um að ákveðið kynfæri sé aðeins kynfæri eins ákveðins kyns þar sem margir karlar eru með píku, margar konur eru með typpi auk kynsegin fólks sem skilgreinir sig utan þessara kynjahugmynda.
Skilgreiningar á hinum ýmsu hugtökum tengdu þessu er að finna í þessum hluta.
Hér tölum við um kynfæri á kynhlutlausan hátt.

Ytri kynfæri
Píka er heiti yfir ytri kynfæri þeirra með XX kynlitninga. Hún samanstendur m.a af leggangaopi, innri og ytri skapabörmum þar í kring og sníp. Snípur er lítið og næmt líffæri fyrir ofan þvagrásaropið. Hann er næmur snertingu og við örvun hans getur myndast fullnæging.
Innri skaparbarmar gegna mikilvægu hlutverki við að vernda og viðhalda raka í snípnum, þvagrásinni og leggöngum. Það er eðlilegt að það sjáist í þá og það gerist við kynþroska. Í fáum tilvikum geta þeir valdið óþægindum ef þeir eru mjög síðir og hanga niður fyrir ytri barma. Óþægindin geta verið við samfarir, hjólreiðar, íþróttaiðkun, klæðnað og fleira.
-
Breyting á skapabörmum er aðeins gerð ef aðila finnst barmarnir vera of stórir, valda óþægindum eða hefta hann við ákveðnar athafnir. Þetta er sjaldgæf aðgerð og er það reynsla lækna að henni hefur ekki farið fjölgandi undanfarin ár.
Meyjarhaft er þunn himna sem þekur leggangaopið við fæðingu til að verja leggöngin fyrir óhreinindum. Haftið minnkar með aldrinum og getur horfið alveg án einkenna. Það litla sem getur verið eftir fyrir fyrsta kynlíf, fer við fyrstu mök. Þá getur blætt lítillega

Innri kynfæri
Leg er holur og sterkur vöðvi sem getur stækkað mikið við meðgöngu. Þar vex til að mynda fóstur eftir getnað þegar leghafi er barnshafandi. Legháls er þar sem leggöng og leg mætast. Hann er mjög þröngur en getur víkkað um 10 cm við fæðingu barns.
Leggöng eru hol, teygjanleg göng sem opnast í legið. Þau eru um 8-12 cm á lengd, geta dregist saman og stækkað. Í gegnum leggöngin fæðist barn og er einnig útgönguleið fyrir tíðablóð frá leginu. Í leggöng er hægt að stunda kynlíf með sjálfum sér og/eða öðrum.
G-blettur er næmt svæði í leggöngum, rétt innan viði leggangaop að framanverðu upp við lífbeinið. Við örvun G-bletts er hægt að fá fullnægingu.
Eggjastokkar eru að jöfnuði tveir, geyma og þroska eggfrumur og framleiða kynhormón kvenna (estrógen og prógesterón). Þeir eru á stærð við vínber og staðsettir sitthvoru megin við legið. Við fæðingu eru þúsundir eggja í eggjastokkunum sem byrja að starfa á kynþroskanum. Hormón hafa þá áhrif á eggjastokkanna sem gerir það að verkum að eggin þroskast. Í hverjum mánuði losnar eitt egg út í eggjaleiðara - það kallast egglos. Eggjaleiðarar eru að jöfnuði tveir og tengja saman leg og eggjastokka. Þeir eru um 10-14 cm langir. Innan í leiðara eru bifhár sem ýta egginu áfram niður í legið.

Ytri kynfæri
Typpi eða getnaðarlimur, er hólklaga líffæri þeirra með XY kynlitninga, sem veitir bæði þvagi og sæði leið út úr líkamanum. Typpi skiptist í rót, bol og kóng og er gert úr þremur risvefjum. Utan um kónginn er forhúð sem ver hann, en hún er stundum fjarlægð með skurðaðgerð (umskurður). Þvagrásin tæmir þvagblöðruna í gegnum blöðruhálskirtilinn þar sem hún er tengd með sáðlátsrásinni og síðan áfram að getnaðarlimnum.Typpi getur komið sáðfrumum inn í leggöng þannig frjóvgun geti átt sér stað og búið til barn.
Typpastærð er mjög breytileg og eru heimildir ekki nákvæmar um hver meðalstærðin er talin vera. Af nokkrum heimildum má ætla að meðallengd typpa í fullri reisn sé einhvers staðar á bilinu 10 til 18 cm og meðalummál 9 til 13 cm. Meðallengd á slöku typpi er hins vegar á bilinu 7 til 10 cm við venjulegar aðstæður en það getur til dæmis minnkað verulega í kulda.
Stinning eða standpína, er stífnun og ris getnaðarlimsins, sem á sér stað við kynferðislega örvun, þó það geti einnig gerst í ókynferðislegum aðstæðum. Sáðlát er sæðislosun úr getnaðarlimnum og fylgir venjulega fullnægingu. Röð vöðvasamdrátta skilar sæði, sem inniheldur kynfrumur þekktar sem sæðisfrumur, frá getnaðarlimnum.
Umskurður á typpum er algengur á sumum stöðum. Það er fjarlæging hluta eða allrar forhúðarinnar af ýmsum menningarlegum, trúarlegum og sjaldnar læknisfræðilegum ástæðum.

Innri kynfæri
Eistun eru að jöfnuði tvö í pungnum og framleiða sáðfrumur. Eistu eru egglaga og eru í kviðarholi á fósturskeiði og fyrsta hluta æviskeiðs en rata svo niður um sérstaka rennu í pung.
Eistað er samsettur pípukirtill og um hann eru sæðispípurnar. Í þeim verða sáðfrumur til og færast svo smám saman út í sérstakt geymsluhólf, aukaeistað sem liggur ofan á eistanu. Þar myndast hluti sáðvökvans en einnig eyðast þar gamlar sáðfrumur ef þær losna ekki út með eðlilegum hætti.
Sáðrás er 50-60 cm löng og liggur frá eistnalyppum yfir í sáðblöðru. Við sáðlát fara sáðfrumur eftir sáðrás og út um typpið. Sáðblaðra liggur meðfram sáðrás og myndar vökva sem nærir sáðfrumur og gerir þeim kleift að hreyfa sig.
Þvagrás gegnir tveimur hlutverkum; að flytja þvag frá þvagblöðru við þvaglát - og flytja sæði við sáðlát. Inni í blöðruhálskirtlinum sameinast þvagrásin frá þvagblöðrunni tveimur sáðfallsrásum. Sæði inniheldur sáðfrumur og sáðvökva.
Blöðruhálskirtill tilheyrir æxlunarkerfinu og er útkirtill, sem þýðir að hann seytir vökva frá sér út í rásir. Hann er eins og kleinuhringur í laginu en svipað stór og valhneta. Blöðruhálskirtillinn liggur í kringum þvagrás þar sem hún kemur úr þvagblöðrunni. Hann liggur framan við endaþarminn og er hægt að þreifa á honum við endaþarmsskoðun.
-
Vandamál tengd blöðruhálskirtli eru ekki óalgeng. Talið er að allt að 50% karla á aldrinum 50-60 ára séu með góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli og eykst tíðnin með hærri aldri.

Intersex

Intersex er meðfætt frávik á líkamlegum kyneinkennum. Það er að segja líkamlegur munur á litningum, erfðafræðilegri framsetningu, hormónastarfsemi, kynfærum, s.s eistum, getnaðarlim, sköpum, sníp, eggjastokkum o.s.frv. Intersex mismunur kemur venjulega fram í innri eða ytri kynfærum. Kyneinkenni sem almennt eru skilgreind sem karl- eða kvenkyn eru að einhverju leyti blönduð.
Intersex einstaklingar skilgreina sig sem kvenkyns, karlkyns eða hvorugt. Intersex snýst ekki um kynleiðréttingarferli eða að viðkomandi skilgreini sig sem trans. Það snýst heldur ekki um kynferðislegar langanir, um kynhneigð eða kynvitund Intersex fólk hefur jafn fjölbreytilega kynhneigð og kynvitund og fólk sem ekki er intersex. Það er ekki alltaf augljóst að einstaklingur sé intersex. Intersex getur m.a sést á meðfæddum líkamlegum mun á ytri kyneinkennum, t.d. vöðvamassa, dreifingu á líkamshárum, brjóstvexti og líkamshæð.
Hér eru nánari útskýringar á intersex og kyneinkennum:


Brjóst
Við kynþroskaaldur taka brjóst að myndast hjá stelpum og einstaklingum með XX litninga. Brjóst eru oft fyrsta merki um kynþroska einstaklings. Það er mjög persónubundið hvenær einstaklingur fær brjóst og hversu lengi þau eru að verða fullþroska.
Brjóstastærð getur verið tvíeggjað sverð. Einstaklingur með lítil brjóst eða finnst þau vera of lítil, telur sig gjarnan flatbrjósta og hefur gjarnan áhyggjur af því að enginn sýni þeim áhuga vegna stærðar. Einstaklingur með stór brjóst á það til að fela þau og finnst jafnvel óþægilegt að fá athygli vegna brjóstastærðarinnar. Þannig hafa brjóst áhrif á sjálfsmynd einstaklinga og þess vegna er gott að ræða um þau snemma á kynþroskaskeiðinu.
Brjóst eru allskonar!